Mætir almenningur afgangi hjá Bjarna Ben?

Það er hægt að gera margar athugasemdir við yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra í Kastaljósi RÚV í gær. Meðal annars gaf Bjarni í skyn að skuldaslóði föllnu bankana sem gæti lagst á hagkerfið væri erlend fjárfesting. Það er ný kenning í hagfræði að halda því fram að taka við skuldum annara sé fjárfesting. Hann talaði einnig um að stöðugleikaskattur leiddi til þess að kröfuhafar tækju út gjaldeyri umfram stöðugleikaframlög, það er ekki rétt. Öllum er hulið nema fjármálaráðherra hvernig neikvæð erlend staða upp á 15-20% af landsframleiðslu veikir ekki þjóðargjaldmiðilinn. Bjarni býður kjósendum varanlega lækkun á lífskjörum með bros á vör.

Fjármálaráðherra virðist hafa gleymt öllum helstu loforðum ríksstjórnarinnar um afnám hafta. Af máli hans mátti ráða að mikill munur sé á kynntri stefnu og framkvæmd áætlunarinnar. Ekki er hægt að sjá annað en að áhættufjárfestar föllnu bankanna og aflandskrónueigendur eigi að fá forgang úr höftum. Á sama tíma og áhættufjárfestum verður hleypt úr höftum hefur afnámsferli fyrir almenning, atvinnulíf og lífeyrissjóði ekki einu sinni verið kynnt. Eiga heimilin að mæta afgangi?

Stöðugleikaskattur er öllum í hag

Stjórnvöld buðu áhættufjárfestum leið framhjá gjaldþroti og höftum, svokallaðan stöðugleikaskatt. Ólíkt því sem fjármálaráðherra gaf í skyn er stöðugleikaskattur ekki „tekjuöflun“, hann á að vernda raunhagkerfið gegn kollsteypu þegar höftin eru leyst af þrotabúum föllnu bankanna. Skatturinn er öllum í hag, honum er ætlað að greiða útgöngu áhættufjárfesta en jafnframt íslensks almennings, atvinnulífs og lífeyrissjóða.

Fjármálaráðherra kynnti stöðugleikaskattinn í Hörpu 8. júní og flutti frumvarp um skattinn á Alþingi. Að mati Bjarna er sú lausn sem hann sjálfur mælti fyrir og samþykkti nú orðin „afarkostur“. Núna finnst honum eðlilegt að aðstoða áhættufjárfestana við að sniðganga skattinn með stöðugleikaframlögum sem veita mikinn afslátt frá skattinum. Þar með er Bjarni í mótsögn við kynningu stjórnvalda þar sem því var haldið fram að skatturinn og stöðugleikaskilyrðin væru jafngildar leiðir. Á þeirri forsendu voru lögin um stöðugleikaskatt samþykkt. Ef stöðugleikaframlögin eiga gera sama gagn verður að sýna fram á að þau séu jafngild skattinum.

Hvar er rökstuðningurinn?

Bjarni á eftir að sjá „endanleg“ stöðugleikaframlög en í Kastljósi fullyrti hann samt að þau leystu hengjuvanda bankanna án þess að leggja fram gögn eða greiningar. Hvar er nú gagnsæið og viðurkennda aðferðafræðin sem lofað var í kynningu ríkisstjórnarinnar? Ef Bjarni telur að hagkerfið muni „komast í skjól“ með núverandi tillögum um stöðugleikaframlög, af hverju sýnir hann ekki fram á það?

Fjármálaráðherra hræðist ekki dómsmál en er tilbúinn að borga hundruð milljarða til að losna við þau.

Tillaga Glitnis að leggja fram hlut í Íslandsbanka minnkar hengjuna úr þrotabúum bankanna. Eftir standa samt 300-400 milljarðar. Það erfitt að sannreyna að verið sé „að sjá fyrir vandann“ eins og Bjarni fullyrti. Fortíðarvandi föllnu bankanna er óleystur, hrunið óuppgert og heldur áfram að leggjast á alla Íslendinga til framtíðar.


Mun Seðlabankinn samþykkja lækkun á lífskjörum?

Í síðustu viku slitnaði upp úr viðræðum nokkurra helstu aðila á vinnumarkaði, svonefnds SALEK-hóps. Enginn árangur var heldur í samningaviðræðum ríkis við SFR, sjúkraliða og lögreglumenn. Kannski er rétt að atvinnurekendur og launþegar taki sér hlé. Seðlabanki Íslands er að meta stöðugleikaframlög þrotabúa föllnu bankanna. Niðurstöðurnar gætu haft varanleg áhrif á lífskjör á Íslandi, gjörbreytt efnahagslegum forsendum.

Almannahagsmuni í forgang við afnám hafta

Aðdragandi er að síðasta sumar kynnti ríkisstjórnin „heildstæða lausn“ á afnámi hafta. Lykilmarkmið áætlunarinnar var að raunhagkerfið tæki ekki út meiri aðlögun en þegar væri orðin, áætlunin átti að setja „almannahagsmuni í forgang“ og byggjast á ,,gagnsæi og viðurkenndri aðferðafræði“.

Vandinn er neikvæð erlend staða þrotabúanna upp á 900 milljarða sem myndar stærsta hluta hinnar svokölluðu snjóhengju. Til að vernda raunhagkerfið var kynntur stöðugleikaskattur á þrotabúin að upphæð 850 milljarða, 682 milljarðar með frádrætti ef kröfuhafar fjárfestu í langtíma skuldabréfum innanlands. Í kjölfar kynningar samþykktu 55 þingmenn lög um stöðugleikaskatt.

Á sama tíma var áhættufjárfestum slitabúa gefinn kostur á að vinna með stjórnvöldum að lausn vandans. Í því skyni var samþykkt hjáleið framhjá stöðugleikakatti, svokölluð stöðugleikaframlög háð mati Seðlabankans. Stöðugleikaframlög áttu að vera „valfrjáls ráðstöfun“ þrotabúa að leysa 900 milljarða króna snjóhengjuvanda föllnu fjármálafyrirtækjanna.

Afsláttur til áhættufjárfesta gæti ógnað stöðugleika

Í útgáfu Peningamála frá í ágúst gerir Seðlabankinn ráð fyrir stöðugleikaframlögum sem nema 15% af landsframleiðslu, um 300 milljörðum. Samkvæmt frétt RÚV frá 2. október hafa fulltrúar áhættufjárfestanna nú boðið hærri stöðugleikaframlög eða 334 milljarða. Af fréttinni að dæma er afslátturinn af stöðugleikaskatti minnst um 348 milljarðar ef gert er ráð fyrir skattafrádrætti, 516 milljarðar án frádráttar. Talsvert virðist vanta upp á að valfrjáls framlög slitabúanna nái að leysa 900 milljarða hengjuvanda þeirra eins og ætlast var til.

Seðlabanki Íslands frestaði kynningarfundi um fjármálastöðugleika sem halda átti 6. október, meðal annars til að kynna áhrif uppgjöra fallinna fjármálafyrirtækja. Óvissan um síðustu tillögur slitabúanna til stöðugleikaframlaga er því talsverð. Þegar uppfærðar tillögur slitabúanna verða loks lagðar fram ber að hafa í huga að sumir þættir stöðugleikaframlaga sem slitabúin kynntu síðasta sumar leysa ekki vandann sem hlýst af neikvæðri erlendri stöðu slitabúanna heldur fresta honum. Einu framlög slitabúa sem bæta stöðugleika eru þau sem varanlega draga úr neikvæðri erlendri stöðu þeirra, til dæmis skattgreiðslur í reiðufé eða afhending eigna.

Stöðugleikaframlögin eins og þau virðast standa gætu því velt talsverðum hluta snjóhengjuvanda föllnu bankanna yfir á raunhagkerfið, almenning, atvinnulíf og lífeyrissjóði. Til dæmis gæti munur á stöðugleikaskatti og stöðugleikaframlagi upp á 348 milljarða valdið varanlegri lækkun á lífskjörum sem því næmi eða 18% af landsframleiðslu. Sú upphæð er ígildi um fjögur þúsund einbýlishúsa á höfuðborgarsvæðinu, kaupverði rúmlega sextíu nýrra togara, eða ríflegu andvirði árlegs útflutnings sjávarafurða. Fyrir 348 milljarða mætti reisa sex nýja Landspítala.

Munur á stöðugleikaskatti og stöðugleikaframlögum gæti þrýst krónunni niður og verðbólgunni upp. Verðtryggð lán gætu hækkað og kaupmáttur rýrnað í kjölfarið, bæði atvinnurekendur og launþegar myndu tapa í óstöðugleikanum. Afsláttur af skatti gæti veikt nýju bankana og lánshæfismat ríkissjóðs rýrnað til samræmis við lækkun lífskjara í landinu. Svigrúm að aflétta höftum af almenningi, atvinnulífi og lífeyrissjóðum gæti einnig þrengst.

Gagnsæi og heilbrigð umræða nauðsynleg

InDefence hefur bréflega og á fundi með Seðlabankastjóra óskað eftir langtíma greiningu áhrifa stöðugleikaskatts og stöðugleikaskilyrða á greiðslujafnað og hagþróun Íslands. Þrátt fyrir loforð um gagnsæi og viðurkennda aðferðafræði er enn fátt um svör.

Hlutverk Seðlabanka Íslands samkvæmt lögum er að stuðla að stöðugu verðlagi og framgangi stefnu ríkisstjórnar. Yfirstjórn bankans er á ábyrgð ráðherra og bankaráðs sem Alþingi tilnefnir.

Afnám hafta er eitt síðasta og stærsta skref sem stíga þarf til að koma þjóðfélaginu á réttan kjöl eftir fall bankanna 2008. Mikilvægt er að vel takist framkvæmd þeirrar metnaðarfullu áætlunnar sem ríkisstjórnin kynnti í sumar.

Til að víðtæk sátt náist um lausn á hengjuvanda þrotabúa verður heilbrigð umræða að eiga sér stað. Seðlabanki hlýtur að leggja fram öll gögn sem nauðsynleg eru að meta stöðugleikaframalög þrotabúa og gera hlutlausan samanburð við stöðugleikaskatt. Útgönga áhættufjárfesta slitabúa getur ekki aðeins gjörbreytt forsendum næstu kjarasamninga, í húfi eru lífskjör allra Íslendinga um ókomin ár.

 


Er sæstrengur glapræði eða gróðamylla?

Stærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, er þjóðareign. Fyrirtækið var stofnað 1965 eftir undirbúning Stóriðjunefndar, tilgangurinn var að sjá íslenskum heimilum og fyrirtækjum fyrir ódýrri orku. Stórkaupandi á raforku, Alusuisse, var hugsaður sem vogarafl sem létti kostnað verkefnisins og skyti stoðum undir nýjan útflutning, framkvæmdir við virkjanir myndu auka verkþekkingu í landinu.

Á fimmtíu ára afmæli Landsvirkjunar hefur upphaflegum markmiðum fyrirtækisins löngu verið náð. Nóg er af ódýrri orku fyrir almenning og atvinnulíf á Íslandi og verkþekking í orkugeira á háu stigi. Fyrirtækið stendur vel og fagna ber að það geti greitt eigendum allgóðan arð á næstu árum. Viðskipta- og fjárfestingastefna fyrirtækisins hefur hins vegar verið einhæf og umdeild, sérstaklega dýrar framkvæmdir við Kárahnjúka sem ollu umtalsverðum náttúrspjöllum.

Hvert skal haldið?
Reynslan sýnir að staldra þarf vel við og skoða gaumgæfilega alla valkosti um framtíð Landsvirkjunar áður en nokkur stór skref eru stigin. Sæstrengur milli Íslands og Bretlands er stórverkefni sem skoða ber af mikilli varúð. Áhættuþættir eru fjölmargir. Stórauka þarf innlenda orkuframleiðslu og efla þarf dreifinet. Náttúruspjöll eru óhjákvæmileg og einnig ruðningsáhrif í hagkerfinu, orkugeirinn myndi soga til sín fjármagn og mannafla á kostnað annarra atvinnugreina og valda mikilli þenslu.

Tvær nýjar Kárahnjúkavirkjanir?
Að sögn breskra sérfræðinga yrði strengurinn ekki sjálfbær, bresk stjórnvöld þyrftu að niðurgreiða framkvæmdina og tryggja langtímasamninga um sölu. Orkan þyrfti að koma frá nýjum virkjunum. Við sæjum líklega fram á tvær stórvirkjanir á borð við Kárahnjúka með tilheyrandi náttúruraski og brambolti. Íslendingar yrðu mjög háðir einum stórum kaupanda en myndu samt aðeins fullnægja broti af heildarþörfum hans. Samningsstaða væri því mjög kaupanda í vil. Íslendingar væru einnig mjög háðir eiganda sæstrengsins nema þeir vildu eiga hann og reka sjálfir.

Mikil óvissa - ör þróun
Helsta röksemd fyrir sæstreng er hátt verð á breskum markaði. En er víst að það haldist þegar fram líða stundir? Væru breskir neytendur eða stjórnvöld reiðubúi á taka sig þær skuldbindingar sem þarf til að gera sæstreng hagstæðan fyrir íslensk orkufyrirtæki? Mikil og ör þróun á sér nú stað í orkuframleiðslu, geymslu og dreifingu. Sólarrafhlöður hrapa í verði, mörg heimili og fyrirtæki víða um heim hafa komið sér upp eigin sólarsellum og kaupa og selja á víxl inn og út á dreifinetið, orkuframleiðsla er að færast frá fáum stórum aðilum yfir á marga dreifða. Nýlega kynnti Tesla fyrstu gerð rafhlaða sem líklegt er að muni gefa notendum kleyft að geyma orku með hagkvæmum hætti. Undrefnið graphene býður upp á marga möguleika, meðal annars að nota afgangshita til að framleiða orku á hagkvæmari hátt en hingað til. Á teikniborðinu í Bretlandi eru meira að segja smærri, ódýrari og öruggari kjarnorkuver en þau sem hingað til hafa þekkst.

Þýskaland fyrirmynd
Þýskland er um margt fyrirmynd annara ríkja í orkumálum. Þar ákváðu stjórnvöld fyrir nokkrum áratugum að kúvenda frá kolvetnis- og kjarnorku frá fáum, stórum orkuverum yfir í dreifða, vistvæna orkugjafa. „Energiewende“ Þýsklands hefur tekist vel, auðvelt væri fyrir Bretland að fara að fyrirmynd Þjóðverja. Fyrirtæki á borð við Ecotricity hafa þegar haslað sér völl í Bretlandi og beislað nýja orkugjafa. Slík vending hlyti einnig mikinn hljómgrunn meðal bresks almennings, en hætt er við að stór og mikil framkvæmd á við sæstreng yrði bæði umdeild og úrelt.

Framkvæmdagleði stjórnenda á kostnað eigenda
Orkuverð á Íslandi myndi einnig hækka ef sæstrengur væri lagður, fjármunir flytjast úr vasa innlendra kaupenda inn í stórfyrirtæki á borð við Landsvirkjun. Fullyrt er að auknar tekjur myndu skila auknum arði. En er víst að arðurinn myndi skila sér til eigenda Landsvirkjunar, íslensku þjóðarinnar? Fjárfestirinn Warren Buffett varar oft við framkvæmdagleði stjórnenda (e. institutional imperative), þeirri áráttu að búa til verkefni með óvissa arðsemi án þess að skeyta um hagsmuni eigenda. Í einni árskýrslu sinn segir Buffett, "hversu fjarstæðukenndar sem hugdettur forstjóra eru fylgir þeim fljótlega ítarlegur rökstuðningur fótgönguliða hans með vísan í ávöxtun og stefnu". Áður en lengra er haldið er þörf á ítarlegri úttekt óháðra aðila um kosti og galla sæstrengs.

Um sæstreng er því aðeins eitt hægt að fullyrða, að hann mun gjörbreyta atvinnulífi og ásjónu Íslands og hækka orkuverð hér á landi. En ábatinn er óviss og kannski minni en enginn. Ef af verður er óþægilega líklegt að á hundrað ára afmæli Landsvirkjunnar verði fyrirtækið og fólkið í landinu enn að rétta úr kútnum vegna sæstrengsævintýrisins.


Um bloggið

brunanbuhr

Höfundur

Sveinn Valfells
Sveinn Valfells

Sveinn Valfells er eðlisfræðingur og hagfræðingur.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband