14.10.2015 | 13:12
Mun Seðlabankinn samþykkja lækkun á lífskjörum?
Í síðustu viku slitnaði upp úr viðræðum nokkurra helstu aðila á vinnumarkaði, svonefnds SALEK-hóps. Enginn árangur var heldur í samningaviðræðum ríkis við SFR, sjúkraliða og lögreglumenn. Kannski er rétt að atvinnurekendur og launþegar taki sér hlé. Seðlabanki Íslands er að meta stöðugleikaframlög þrotabúa föllnu bankanna. Niðurstöðurnar gætu haft varanleg áhrif á lífskjör á Íslandi, gjörbreytt efnahagslegum forsendum.
Almannahagsmuni í forgang við afnám hafta
Aðdragandi er að síðasta sumar kynnti ríkisstjórnin heildstæða lausn á afnámi hafta. Lykilmarkmið áætlunarinnar var að raunhagkerfið tæki ekki út meiri aðlögun en þegar væri orðin, áætlunin átti að setja almannahagsmuni í forgang og byggjast á ,,gagnsæi og viðurkenndri aðferðafræði.
Vandinn er neikvæð erlend staða þrotabúanna upp á 900 milljarða sem myndar stærsta hluta hinnar svokölluðu snjóhengju. Til að vernda raunhagkerfið var kynntur stöðugleikaskattur á þrotabúin að upphæð 850 milljarða, 682 milljarðar með frádrætti ef kröfuhafar fjárfestu í langtíma skuldabréfum innanlands. Í kjölfar kynningar samþykktu 55 þingmenn lög um stöðugleikaskatt.
Á sama tíma var áhættufjárfestum slitabúa gefinn kostur á að vinna með stjórnvöldum að lausn vandans. Í því skyni var samþykkt hjáleið framhjá stöðugleikakatti, svokölluð stöðugleikaframlög háð mati Seðlabankans. Stöðugleikaframlög áttu að vera valfrjáls ráðstöfun þrotabúa að leysa 900 milljarða króna snjóhengjuvanda föllnu fjármálafyrirtækjanna.
Afsláttur til áhættufjárfesta gæti ógnað stöðugleika
Í útgáfu Peningamála frá í ágúst gerir Seðlabankinn ráð fyrir stöðugleikaframlögum sem nema 15% af landsframleiðslu, um 300 milljörðum. Samkvæmt frétt RÚV frá 2. október hafa fulltrúar áhættufjárfestanna nú boðið hærri stöðugleikaframlög eða 334 milljarða. Af fréttinni að dæma er afslátturinn af stöðugleikaskatti minnst um 348 milljarðar ef gert er ráð fyrir skattafrádrætti, 516 milljarðar án frádráttar. Talsvert virðist vanta upp á að valfrjáls framlög slitabúanna nái að leysa 900 milljarða hengjuvanda þeirra eins og ætlast var til.
Seðlabanki Íslands frestaði kynningarfundi um fjármálastöðugleika sem halda átti 6. október, meðal annars til að kynna áhrif uppgjöra fallinna fjármálafyrirtækja. Óvissan um síðustu tillögur slitabúanna til stöðugleikaframlaga er því talsverð. Þegar uppfærðar tillögur slitabúanna verða loks lagðar fram ber að hafa í huga að sumir þættir stöðugleikaframlaga sem slitabúin kynntu síðasta sumar leysa ekki vandann sem hlýst af neikvæðri erlendri stöðu slitabúanna heldur fresta honum. Einu framlög slitabúa sem bæta stöðugleika eru þau sem varanlega draga úr neikvæðri erlendri stöðu þeirra, til dæmis skattgreiðslur í reiðufé eða afhending eigna.
Stöðugleikaframlögin eins og þau virðast standa gætu því velt talsverðum hluta snjóhengjuvanda föllnu bankanna yfir á raunhagkerfið, almenning, atvinnulíf og lífeyrissjóði. Til dæmis gæti munur á stöðugleikaskatti og stöðugleikaframlagi upp á 348 milljarða valdið varanlegri lækkun á lífskjörum sem því næmi eða 18% af landsframleiðslu. Sú upphæð er ígildi um fjögur þúsund einbýlishúsa á höfuðborgarsvæðinu, kaupverði rúmlega sextíu nýrra togara, eða ríflegu andvirði árlegs útflutnings sjávarafurða. Fyrir 348 milljarða mætti reisa sex nýja Landspítala.
Munur á stöðugleikaskatti og stöðugleikaframlögum gæti þrýst krónunni niður og verðbólgunni upp. Verðtryggð lán gætu hækkað og kaupmáttur rýrnað í kjölfarið, bæði atvinnurekendur og launþegar myndu tapa í óstöðugleikanum. Afsláttur af skatti gæti veikt nýju bankana og lánshæfismat ríkissjóðs rýrnað til samræmis við lækkun lífskjara í landinu. Svigrúm að aflétta höftum af almenningi, atvinnulífi og lífeyrissjóðum gæti einnig þrengst.
Gagnsæi og heilbrigð umræða nauðsynleg
InDefence hefur bréflega og á fundi með Seðlabankastjóra óskað eftir langtíma greiningu áhrifa stöðugleikaskatts og stöðugleikaskilyrða á greiðslujafnað og hagþróun Íslands. Þrátt fyrir loforð um gagnsæi og viðurkennda aðferðafræði er enn fátt um svör.
Hlutverk Seðlabanka Íslands samkvæmt lögum er að stuðla að stöðugu verðlagi og framgangi stefnu ríkisstjórnar. Yfirstjórn bankans er á ábyrgð ráðherra og bankaráðs sem Alþingi tilnefnir.
Afnám hafta er eitt síðasta og stærsta skref sem stíga þarf til að koma þjóðfélaginu á réttan kjöl eftir fall bankanna 2008. Mikilvægt er að vel takist framkvæmd þeirrar metnaðarfullu áætlunnar sem ríkisstjórnin kynnti í sumar.
Til að víðtæk sátt náist um lausn á hengjuvanda þrotabúa verður heilbrigð umræða að eiga sér stað. Seðlabanki hlýtur að leggja fram öll gögn sem nauðsynleg eru að meta stöðugleikaframalög þrotabúa og gera hlutlausan samanburð við stöðugleikaskatt. Útgönga áhættufjárfesta slitabúa getur ekki aðeins gjörbreytt forsendum næstu kjarasamninga, í húfi eru lífskjör allra Íslendinga um ókomin ár.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:01 | Facebook
Um bloggið
brunanbuhr
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.